Hljóð og hljóðvinnsla

Skapandi hljóðvinna

Markmið námskeiðsins er að beina athygli nemenda að hljóðheiminum. 

Með því að leggja meiri áherslu á hljóð í umhverfinu getur skilningur og næmni til þess að rannsaka og tjá hugmyndir aukist.

Kennsla felst í vettvangsferðum þar sem lögð er áhersla á að skynja umhverfið; stuðla að samþættingu skynjunar og skynsemi með virkri þáttöku og snertingu við umhverfið. 

Fjallað verður fræðilega um hljóð og eiginleika þess og munu nemendur öðlast grunnþekkingu í hljóðvinnslu. 

Verkefnin miða að því að örva hæfileika nemenda til listsköpunar þar sem hljóð og tónar eru efniviðurinn og verða ýmsar skapandi leiðir reyndar í þeim efnum. 

Heimur ímyndunaraflsins á sér engin takmörk og verður leitast við að gefa nemendum frelsi til þess að finna hugmyndum sínum farveg með því að vinna úr tónum, hljóðum, þögnum; einir eða í samstarfi við aðra nemendur. 

Meðal annars verður unnið verður með hljóðupptökur sem nemendur afla á vettvangi og þeim fundinn farvegur í verkefnum.

Þóranna Björnsdóttir 
listamaður og listkennari

Þóranna Dögg Björnsdóttir er starfandi listamaður og listkennari. Þóranna stundaði tónlistarnám frá unga aldri og lauk burtfararprófi í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH. Hún lauk BA gráðu frá Konunglega Listaháskólanum í Haag árið 2006 og M.Art.Ed gráðu í kennslufræði lista við Listaháskóla Íslands árið 2014. Þóranna hefur sótt ýmis námskeið og vinnustofur í tengslum við tónlist, hljóð- og myndlist og staðið að kennslu í þeim efnum.

Viðfangsefni Þórönnu í listsköpuninni eru mörg og fjölbreytt en snúast gjarnan um heimssýn einstaklingsins, hvernig hún mótast og þróast. Þóranna hefur í gegnum tíðina starfað að þverfaglegum verkefnum í listsköpun sinni, þar sem þátttaka áhorfenda er gjarnan listrænn útgangspunktur við mótun verkanna. Verk hennar eru iðulega sambland af mynd og hljóði; taka form í gegnum lifandi gjörninga, innsetningar, skúlptúra og hljóðverk. Verk Þórönnu hafa verið flutt víða og hefur hún komið fram á fjölmörgum tónleikum og listahátíðum á Íslandi og erlendis. Þóranna starfar einnig með listahópnum Wunderland http://wunderland.dk